Skvísurnar á Stavnsvej

Sunday, May 28, 2006

Sumarleg Pavlova með mascarponerjóma kremi

4 eggjahvítur
175 g sykur
1 msk maísmjöl
1 tsk hvítvínsedik

Hitið ofninn í 150°c. Þeytið eggjahvíturnar uns þær eru hálfstífar. Bætið helmingnu af sykrinum saman við og þeytið áfram þar til marengsinn myndar stífa toppa. Setjið þá afganginn af sykrinum út í ásamt maísmjölinu og þeytið meira. Hrærið að lokum hvítvínsedikinu saman við. Teiknið hring á bökunarpappír á plötu ca 24 cm í þvermál. Smyrjið deiginu á yfir hringinn á plötunni og látið barmana vera ögn hærri.
Lækkið hitann eftir 10 mín í 120°c. Bakið í eina klst. Slökkvið þá á ofninum og látið kökuna standa inni í honum í 1 klst.

Krem:

250 g mascarpone ostur
1 eggjarauða
50 g flórsykur
1 vanillustöng
smá sletta af amaretto (má sleppa)
100 ml þeyttur rjómi

Þeytið saman, ostinn, eggjarauðuna, flórsykur, amaretto. Klúfið vanillustöngina og skafið fræin innan út og setjið út í og þeytið. Blandið saman við þeytta rjómann og smyrjið yfir kökuna þegar hún hefur kólnað.
Setjið ber eða skafið innan úr passionfrugt ofan á kökua.

Guðrún Björk

Sætar sinnepskartöflur á grillið

2-3 sætar kartöflur
2 msk dijon sinnep
1 msk balsamedik
1 tsk sojasósa
1 msk karrí
2 msk fersk steinselja
4 msk olía
svartur pipar
salt

Afhýðið kartöflurnar og skerið þær í báta. Fínsaxið steinseljuna og blandið öllu saman og setjið yfir kartöflurnar í skál. Hrærið vel saman og látið standa í ca 1 klst fyrir grillun.
Grillið kartöflurnar á grillinu í ca 10 mín, veltið þeim fyrst og látið svo bakast á efri grindinni.

Guðrún Björk

Rauðlauks-mangósalat, með grillkjötinu

Guðrún Björk

1 þroskaður mangó
1 rauðlaukur
2 kiví
1/2 agúrka
1 msk, fersk mynta
2 msk, ferskt kóríander
2 msk olía
1 límóna
1 chilialdin
1 msk fljótandi hunang
salt og pipar

Skerið mangó í sneiðar, agúrku og kivi í teninga og rauðlaukinn í tvennt og svo í sneiðar. Blandið öllu saman í skál. Hrærið saman olíu, safa úr límónu, hunangi og salti og pipar. Saxið chili, myntu og kóríander og blandið saman við. Hellið yfir salatið og blandið vel.

Þetta salat er ómissandi með dýrlega kjúklingnum og jógúrtsósunni. Jummí !

Dýrlegur grillaður kjúklingur

Guðrún Björk

700 g kjúklingabringur skinnlausar
3 stilkar sítrónugras (lemongras)
3 msk engifer, fínrifið
4 msk sojasósa
1/2 msk hunang
4 msk sesamolía
kóríander, fínsaxað
1 rautt chilialdin, fínsaxað
1 límóna

Skerið kjúklingabringurnar langsum í tvennt eða þrennt. Setjið sítrónugras, engifer, chili, hunang, sojasósu, sesamolíu í mixara og kreystið úr límónunni út í. Mixið allt vel saman og hellið yfir kjúklinginn. Látið marinerast í a.m.k. 3 klst áður en grillað er. Hitið grillið í 400 gráður. Veltið kjúklingnum á grillinu þannig að hann brúnist vel og kjötið loki sér. Setjið hann svo upp á efri grindina á grillinu og látið hann bakast þar í ca 15 mín, eða þar til hann er gegnsteiktur. Lækkið hitann á grillinu. Athugið að hafa grillið sem mest lokað á meðan kjúllinn soðnar.

Jógúrtsósa:

2 dósir hrein jógúrt
1/2 sítróna
1 hvítlauksrif
1/2 tsk kummin
2 msk fersk mynta
salt og pipar

Hellið jógúrt í skál. Pressið hvítlaukinn út í, fínsaxið myntuna og blandið öllu saman.

Sunday, May 21, 2006

Hér kemur ein einföld og fljótleg...tilvalinn í sunnudagskaffið!

Appelsínukaka

Uppskrift

200 gr sykur
200 gr smjörlíki (við stofuhita)
3 egg
2 tsk lyftiduft
200 gr hveiti
Börkur af hálfri appelsínu + safinn og kjötið sem er mixað saman í mauk.

Allt hrært saman í hrærivél og bakað við 200 gr í 20 mín ca í springformi.

Krem
150 gr smjör (við stofuhita)
Tæplega 1 pakki flórsykur
2 kúfaðar msk kakó
vanillusykur ca 2 tsk
1 egg (má sleppa)
smá kaffi (ca 2 tsk instant hrært út í smá heitt vatn). Passið ykkur að hafa lítinn vökva, svo kremið verði ekki of fljótandi. Hrærið vel saman í hrærivél þar til kremið er orðið fluffy og fínt.

kv Sigrún

Enskar Skonsur

Jæja þá er komin tími á að skella nokkrum uppskriftum inn!

Enskar Skonsur (fljótlegar og þægilegar)

Uppskrift

100 g smjör
440 g hveiti
1 tsk salt
2 tsk sykur
4-5 tsk lyftiduft
1 egg
4 dl mjólk
rúsínur ef vill (gott að setja t.d í helming af deginu)

Aðferð
Bræða smjör við lágan hita. Blanda öllum þurrefnum í skál. Slá eggið saman við mjólkina og hræra blönduna síðan saman við þurrefnin ásamt smjörinu. Það er þægilegast að baka skonsurnar í stórum muffinsformum og gerir uppskriftin þá ca 12-14 skonsur, fer eftir stærð formanna náttúrulega. Baka við ca 200 í 20 mín. Einhverjar ykkar hafa smakkað skonsur hjá mér...þetta eru sem sagt ekki þær, heldur önnur uppskrift sem mér þykir betri og þægilegri.

Kveðja Sigrún

Wednesday, May 17, 2006

Tómataterta

Deig:
60 gr gróft hveiti
120 hveiti
1/2 tsk gróft salt
100 gr smjör
2 msk vatn

Blanda hveiti og salt saman og smjörið mulið með. Deigið hnoðað og sett í form, vel uppá kantana, bakað í miðjum ofni. Bakað í ca 15 mín við 200°

Fylling:
3 laukar hakkaðir (ca 300 gr)
4 tómatar skornir í sneiðar
2 egg
200 gr kotasæla
1 tsk timian
1 1/2 tsk gróft salt
pipar
100 gr rifinn ostur

Laukurinn steiktur á pönnu. Tómatskífur lagðar í botninn á deiginu og laukurinn ofan á. Hræra saman kotasælu, egg, timian, salt og pipar. Þessu hellt yfir tómatana. Laukurinn settur ofan á. Að lokum er rifinn ostur dreift yfir.
Bakað í miðjum ofni í ca 30 mín við 200°

Þetta er rosalega góð terta og er vinsæl í kvöldmatinn á mínu heimili.
Bestu kveðjur
Guðrún Erla

Tuesday, May 16, 2006

JÍBÍÍÍ, loksins tók ég mig saman og lærði hvernig ætti að skrifa inn á þessa fínu uppskriftarsíðu.
Hér kemur fyrsta uppskriftin frá mér

Kryddbrauð

3 dl hveiti
3 dl sykur
3 dl haframjöl
2 tsk natron
1 tsk kakó
1/2 tsk engifer
1/2 tsk negull
3 dl mjólk

Allt hráefni sett í skál og hrært saman. Sett í ''brauðform'' og inn í ofn við 180°. Bökunartími er ca 1 klst en ég hef það fyrir reglu að fylgjast vel með brauðinu því bökunartíminn er svo misjafn eftir ofnum.
Verði ykkur að góðu
Með bestu kveðju
Guðrún Erla