Skvísurnar á Stavnsvej

Friday, November 24, 2006

Mjög gott og einfalt stir fry

5-6 bollar grænmeti (má líka vera kjöt, t.d. kjúklingur)
2-4 rif hvítlaukur
smá bútur af engiferrót
1-2 msk hunang
1-2 msk sojasósa eða ostrusósa

Allt soðið niður og haft tilbúið. Hitaðu wok pönnu eða venjulega pönnu mjög vel og settu örlítið af olíu út á hana. Steiktu smátt skorinn hvítlauk og engiferrót í ca 1/2 mínútu. Settu allt grænmetið út á og steiktu í um 2-3 mínútur. Ef notað er kjöt er það steikt fyrst og svo tekið af pönnunni áður en grænmetið er steikt. Öllu er svo blandað saman á pönnuna ásamt hunangi og sósu. Kryddið eftir smekk með salti og pipar. Gott að sjóða eggnúðlur og bæta út í í lokin.

Ógurlega gott get ég lofað ykkur,
Guðrún Björk

Vinsæll karríkjúklingur

Þessi er ofureinfaldur og hrikalega góður. Passið ykkur bara á karrímagninu ef börnin eiga að borða hann líka. Þá er ágætt að byrja með helmingi minna magn og bæta við eftir smakkið. Athugið líka að karrí er mjög missterkt, fer eftir blöndum kryddsins en eins og þið sjálfsagt vitið er karrí kryddblanda.

En hér kemur uppskriftin:

Kjúklingabringur 4-5 stk
Hvítlaukur 4 rif
Rjómi 1 peli (má nota mjólk + smjör, eða sýrðan rjóma)
Mangóchutney 1/2 krukka
Karrí 1 msk
Handfylli af fersku kóríanderlaufi, má alls ekki sleppa !!!

Kjúklingurinn skorinn í bita, kryddaður með salti og pipar og steiktur á pönnu í örlítilli olíu. Þegar hann er næstum gegnsteiktur er söxuðum hvítlauk bætt í, svo rjóma, mangóchutney og karrí. Blandið öllu vel saman og látið malla í 20 mín. Hellt í fat og kóríander stráð yfir áður en rétturinn er borinn fram. Bragðast vel með hrísgrjónum, salti og hvítlauksbrauði.

Guðrún Björk

Saturday, November 04, 2006

Eplaskífur

Ekki laust við að jólafiðringur fari um mann, allt að fyllast af jóladóti og jólagjafaauglýsinarnar fylltu póstkassann fyrir helgina. Þessa uppskrift rakst ég á í Kökublaði Gestgjafans og mig langaði að deila henni með ykkur.
Eplaskífur eru ekki djúpsteiktar í feiti heldur bakaðar eða steiktar í sérstakri pönnu, eins og þið vitið. Margir undrast nafnið en upphaflega voru eplaskífur eplasneiðar sem dýft var í deig og svo steiktar. Seinna hurfu eplin en nafnið hélst. Sumir stinga þó enn eplabita í skífurnar áður en þeim er snúið við í fyrsta skipti.

En hér kemur uppskriftin.

250 g hveiti
fínrifinn börkur úr 1 sítrónu eða 1 tsk vanilludropar
1 msk sykur
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsóti
1/4 tsk salt
3 egg
um 400 ml súrmjólk
50 g bráðið smjör

smjör eða olía til steikingar

Hrærið allt sem fara á í deigið saman þar til komin er slétt deigsoppa, nokkru þykkari en vöffludeig. Hellið soppunni í könnu. Hitið eplaskífupönnuna, hellið svolítilli feiti í hverja holu og hellið svo deiginu í holurnar. Þær eiga að vera fullar að u.þ.b. þremur fjórðu hlutum. Steikið eplaskífurnar við meðalhita og byrjið að snúa þeim um leið og skorpa hefur myndast að neðan. Best er að nota tvo bandprjóna eða grillpinna en einnig má nota gaffla. Snúið skífunum nokkrum sinnum svo að þær steikist jafnt. Þær ættu að vera tilbúnar þegar þær eru fallega gullinbrúnar en gott er að taka eina upp og skera hana í tvennt til að athuga hvort hún sé gegnumsteikt. Hellið svolítilli feiti í holurnar á milli þess sem nýtt deig er sett í þær. Setjið eplaskífurnar svo á fat og sigtið flórsykri yfir þær. Berið fram með flórsykri og góðri sultu.

Kveðja,
Guðrún Björk

Sítrónukjúklingur með hvítlauk og kartöflum

Fyrir 4-6

10-12 kjúklingabitar
salt og pipar
börkur af 1 sítrónu, fínrifinn
1-2 sítrónur, þunnt sneiddar
17-20 hvítlauksgeirar, með hýðinu
900 g nýjar kartöflur, með hýðinu
ólífuolía

Hitið ofninn í 180°C. Setjið kjúklingabitana í ofnskúffu eða eldfast fat og kryddið með salti og pipar eftir smekk. Dreifið sítrónuberki, sítrónusneiðum og hvítlauksrifjum yfir. Berjið kartöflurnar létt með kökukefli þannig að þær opni sig aðeins og bætið þeim í fatið. Hellið góðri ólífuolíu yfir og hristið fatið svo allt blandist vel saman. Bakið í u.þ.b. 45 mín til eina klukkustund og hristið fatið annað slagið á meðan. Berið réttinn fram í fatinu með góðu brauði. Einnig gott að hafa gufusoðið spergilkál með.

Kveðja,
Guðrún Björk