Skvísurnar á Stavnsvej

Tuesday, March 28, 2006

Bananabrauð, góð tilbreyting í nestisbox barnanna

4 Stórir bananar
2 egg
200 ml eplamauk
1 tsk olía
500 g hveiti
1 tsk lyfitduft
1/2 tsk matarsódi
125 g sykur
1 tsk kanill
1/2 tsk negull

Brytjið banana niður og setjið í skál ásamt eggjum, eplamauki og olíu. Þeytið vel saman. Bætið öllu öðru út í og hrærið saman. Setjið í smurt og hvetistráð stórt jólakökuform. Má líka setja í tvö lítil eða helminga uppskriftina og baka eitt lítið brauð.
Bakið við 175 c í 45-60 mínútur, eða þar til brauðið er aðeins farið að losna frá forminu.

Við Sigrún höfum leikið okkur með þessa uppskrift og bætt hana og breytt henni til að auka hollustuna. Það er alveg óhætt að helminga sykurmagnið og jafnvel nota hrásykur í staðinn fyrir hvítan. Einnig má nota blandað mjöl, t.d. setja haframjöl og heilhveiti á móti hveitinu, svo lengi sem maður fer ekki yfir 500 g af mjölmagni.
Verði ykkur að góðu,
Guðrún Björk

Sunday, March 26, 2006

Ostakaka Lóu

Botn

1 poki makkarónur, muldar og bleyttar upp með appelsínusafa. Hrært saman og sett í botninn á bökuformi.

Fylling

1/2 líter þeyttur rjómi
400 g rjómaostur
1 bolli af flórsykri

Súkkulaðibráð

200 dökkt súkkulaði
1 dós sýrður rjómi

Aðferð

Þeytið saman rjómaostinn og flórsykurinn. Hrærið blöndunni varlega saman við þeytta rjómann. Setjið yfir botninn. Bræðið súkkulaðið varlega yfir vatnsbaði. Þeytið saman súkkulaðið og sýrða rjómann og setjið yfir kökuna. Kælið kökuna í 2 klst áður en hún er borin fram. Gott er að skreyta hana með ferskum berjum.

Guðrún Björk

Mexíkóskt lasagna

Uppskrift

5-6 kjúklingabringur
1/2 laukur
2 rauðar paprikur eða 1 stór
Eitt bréf burrito/taco kryddmix
2 dósir medium salsa sósa
1/2 líter matarrjóma6 tortillakökur

Aðferð

Kjúklingabringurnar eru skornar í teninga, laukurinn skorinn smátt og paprika í teninga. Þetta er steikt á pönnu og kryddinu bætt útí. Látið krauma þar til kjúklingurinn er steiktur. Bæta þá sósu og rjóma útí og láta malla smá stund. Þekja þarf botn á eldföstu móti, klippið þær til svo þær passi. Svo er kjúklingarétturinn og pönnukökurnar sett til skiptis. Hafið kjúklingaréttinn efst og stráið ost yfir og látið malla þar til osturinn er bráðnaður.

Verði ykkur að góðu
kv Sigrún

Frönsk Súkkulaði kaka (brúðarterta Sigrúnar og Freysa)

Uppskrift

1 bolli sterkt uppáhelt kaffi
200 gr sykur
20 gr púðursykur
300 gr smjör
400 gr 70 % súkkulaði (odense súkkulaðið er líka gott)
5-6 egg

Aðferð

Setjið kaffið í pott og bætið sykrinum útí. Látið suðuna koma upp og hrærið í á meðan svo sykurinn leysist upp. Takið pottinn af hellunni og bætið smjöri og súkkulaði útí og hrærið saman þar til allt er bráðið. Látið blönduna kólna aðeins. Bætið eggjunum útí og hrærið saman með písk. Klæðið stórt lausbotna form með bökunarpappír og smyrjið svo pappírinn og hliðarnar með smjöri. Hveitistráið formið og setjið súkkulaði blönduna í. Bakið kökuna í ca 1 klst á blæstri við ca 180, fylgist samt vel með svo hún brenni ekki. Kælið kökuna í ca 3 klst áður en hún er borin fram. Gott er að hlaða á hana ferskum berjum og sigta flórsykur yfir hana. Hrikalega einföld kaka en syndsamlega góð:)

Verði ykkur að góðu
kv Sigrún

Bollur/partýbrauð

Uppskrift

1kg hveiti
2 tsk lyftiduft
100 gr sykur
200 gr smjörlíki
21/2 dl mjólk
3 dl vatn
2 pakkar þurrger

Aðferð

Þurrefnum blandað saman ásamt þurrgeri. Smjörið brætt í potti, ásamt vatni. Köld mjólkin sett saman við. Þegar blandan er orðin ylvog er henni blandað við þurrefnin. Hnoðað saman og látið hefast á hlýjum stað í ca klst. Sláið svo loftið úr deiginu og mótið í bollur/partýbrauð. Smyrjið með eggi og stráið t.d sesamfræjum ofan á. Ég læt bollurnar alltaf standa í ca 10-15 mín áður en þær fara svo í ofnin. Bakið við ca 200 í ca 15-20 mín, eða þar til ykkur sýnist bollurnar bakaðar. Ein svona uppskrift dugir í 2 partýbrauð.

Verði ykkur að góðu
kv Sigrún

Tómatsúpa

Uppskrift

2 dósir niðursoðnir tómatar
1 stór dós tómatpaste
1-2 grænmetisteningar
1-11/2 l vatn (byrjið á 1 l og bætið svo í eftir því sem súpan þykknar)
nýmalaður svartur pipar, slatti
1 peli rjómi (má sleppa)

Aðferð

Tómatar og paste maukað saman í matvinnsluvél. Öllu blandað saman í pott og soðið við lágan til miðlungshita í ca 2 klst, hræra í öðru hvoru. Ef þið notið rjóma, þá er hann settur alveg í lokin þegar súpan er tilbúin, ýmist þeyttur eða fljótandi. Þessi súpa er mjög einföld og góð með nýbökuðum bollum a la Sigrún:)

verði ykkur að góðu
kv Sigrún

Friday, March 24, 2006

Opnun uppskriftabloggs Stavnsvejskvísa

Jæja skvísur

Ég tók mig til og setti upp bloggsíðu fyrir uppskriftirnar okkar. Ég kann nú ekkert á svona bloggsíður en það hlýtur að koma:). Er ekki bara sniðugast að þegar ný uppskrift er sett inn, þá sé heitið á uppskriftinni settur sem titill svo auðveldast sé fyrir okkur að finna uppskriftirnar og nöfnin ykkar undir svo við sjáum hver kokkurinn er. Fréttir og aðrar upplýsingar skýrið þið þeim titli sem ykkur hentar. Endilega notið bloggið fyrir fleira en uppskriftir...ég tala nú ekki um þegar fólk fer að leika þann ljóta leik að flytja héðan...þá væri auðvitað gaman að fá fréttir og slíkt öðru hverju og reyna að halda hópinn dáldið.
Jæja þetta er orðið fínt í bili. Kannski ég reyni að setja inn e-h uppskriftir frá mér, sem þið hafið verið að biðja um.

Bless í bili
Sigrún