Skvísurnar á Stavnsvej

Sunday, January 21, 2007

Túnfisk pastagratín

Þessi réttur er mjög einfaldur og barnavænn. Kemur sér vel þegar svalt er í veðri og smá tilbreyting frá kjötinu. Þægilegur hversdagsréttur. Það má alveg nota annað pasta en tagliatelle og ef þið viljið ekki túnfisk má alveg nota annað í staðinn, smátt skorið grænmeti sem steikt hefur verið á pönnu smá stund.

350 g tagliatelle
salt
2 dósir túnfiskur í olíu
1 dós kotasæla
1 dós sýrður rjómi
3-4 tómatar, saxaðir
3-4 vorlaukar, saxaðir
1 krukka (400-500 ml) tómat pastasósa eftir smekk, t.d. bolognesesósa
nýrifinn parmesan ostur

Hitið ofninn í 200°C. Sjóðið pastað í saltvatni u.þ.b. til hálfs en hellið því síðan í sigti og látið renna vel af því. Takið fyrst frá svolítið af suðuvatninu og geymið. Hellið olíunni af túnfiskinum, stappið hann svolítið til að losa sundur stærstu flögurnar og blandið honum saman við kotasælu og sýrðan rjóma, ásamt söxuðum tómötum og vorlauk. Þynnið sósuna svolítið með pastasoði. Dreifið u.þ.b. þriðjungi af tómatsósunni á botninn á eldföstu fati. Setjið helminginn af pastanu þar ofan á og síðan helminginn af túnfisksósunni. Setjið svo aftur pasta, túsfisksósu og síðast það sem eftir er af tómatsósunni. Stráið parmesanosti yfir og bakið í ofni í u.þ.b. 25 mínútur. Berið fram með brauði og parmesanosti. Ekki er verra að hafa gott salat með. Ógurlega gott með hvítvíni.

Verði ykkur að góðu,
Guðrún Björk

Wednesday, January 17, 2007

peru-súkkulaði baka

Þessa köku fann ég í gestgjafanum og ákvað að prófa þar sem hún er svo einföld. Hún er alveg rosalega góð, kemur eiginlega á óvart og fín tilbreyting frá eplakökum, sem maður er svo oft með.

Bökuskel
175 gr hveiti
2 msk sykur
1/2 tsk salt
100 g kalt smjör í bitum
1 eggjarauða
1 msk ískalt vatn

Aðferð
Öllu hráefninu er skellt í matvinnsluvél (eða skál), nema egginu og vatninu. Vélin er látin ganga á mesta hraða í 1 mín. Egginu og vatninu er svo skellt útí og vélin látin ganga í 1 mín til viðbótar. Geymið í kæli í 15 mín.

Hitið ofninn í 200 gráður, smyrjið bökuform og flejtið deigið út á hveitistráðu borði í kringlótta köku og leggið síðan í formið.

Fylling
1 stórt egg
1 eggjarauða
11/2 dl rjómi
1/2 tsk vanilludropar eða 1 tsk vanillusykur
4-6 vel þroskaðar perur
100 súkkulaði
2 msk sykur

Aðferð
Þeytið saman í skál eggi og eggjarauð, bætið rjóma og vanilludropum útí og þeytið áfram í augnablik (passa að rjóminn þeytist ekki). Saxið súkkulaði og setjið í botninn á bökuskelinni. Raðið niðurskornum perum þar ofan á (fallegt að skera þær í þunnar sneiðar, þversum) og hellið svo eggjablöndunni yfir allt saman. Stráið að lokum sykri yfir. Bakið bökuna í 10 mín og lækkið svo hitann í 180 gráður og bakið áfram í ca 25 mín. Berið fram með rjóma.

Njótið vel
kv Sigrún