Skvísurnar á Stavnsvej

Monday, October 30, 2006

Lax með geitaosti

Þessi réttur er ofureinfaldur og hrikalega góður

800 g laxaflök/bitar
1 msk timjan
1 msk grænmetiskraftur
2 stk hvítlauksgeirar
3 msk ólífuolía
200 gr ferskt spínat
nýmalaður pipar
250 gr geitaostur
4 msk hunang
1 tsk maldon salt

Laxabitarnir eru settir í smurt eldfast mót og timjani og grænmetiskrafti stráð yfir. Afhýðið og pressið hvítlauk og setjið útí ólífuolíuna. Hellið hvítlauksolíunni yfir laxinn. Hrærið saman geitaost og hunangi og setjið á bitana. Spínatinu er svo dreift yfir og á milli bitana og kryddað með pipar. Bakið í ca 10 mín við 200 gráður ofarlega í ofninum. Stráið maldon salti yfir um leið og rétturinn er borin fram.

Með þessu er gott að hafa gott kúskús salat eða nýjar soðnar kartöflur og kalda sósu.

Hugmynd að sósu
Ein dós sýrður rjómi
hvítlauksrif
limesafi
hunang
ferskt kóríander
maldon salt
Allt mixað saman

eða
Ein dós sýrður rjómi
hvítlauksrif
limesafi
maldon salt
cummin duft

Njótið vel
kv Sigrún

Sunday, October 29, 2006

Hollt sælgæti

Þessi uppskrift kemur líka frá grænum kosti og er mjög góð

21/2 dl blandaðar hnetur/möndlur
2 stk hrískökur
15 stk þurrkaðar apríkósur
15 stk þurrkaðar döðlur
1 stk banani
2 msk carob duft/gott kakó
1 tsk vanilluduft/dropar

til að velta uppúr
Ristað kókosmjöl
smá sesamfræ

Setja hnetur og hrískökur í matvinnsluvél go mala frekar smátt. Skera apríkósur og döðlur í litla bita og setjið útí. Skerið banana í litla bita og setjið útí ásamt vanillu. Blandið þar til allt er vel límt saman. Ristið kókosmjöl á pönnu og blandið saman við sesamfræ. Hnoðið litlar kúlur og veltið uppúr og kælið.

kv Sigrún

Gulrótarkaka græns kosts

Þessi kaka er alveg hrikalega góð, þó svo að hún innihaldi engan hvítan sykur, ekkert hveiti og ekkert smjör. Hún er bara ógurlega holl:)

Gulrótarkaka

8dl gulrætur
21/2 dl heslihnetur
2 dl kókosmjöl
2dl haframjöl/malaðar möndlur (ég nota 1 dl af hvoru)
1 msk kanill
1 tsk malaðar kardimommur
1 tsk vanilluduft/dropar
500 gr döðlur

Krem

400 g philadelphia ligth
100 g döðlur
100 apríkósur
ca 2 msk sætuefni (ef vill)

Skerið döðlurnar smátt, ef þær eru mjög harðar er gott að leggja þær í bleyti í heitt vatn. Rífið niður gulræturnar, malið hneturnar og ristið kókosmjölið á pönnu. Blandið öllu saman í skál og kreistið saman með höndunum eða setjið í hrærivél. Smyrjið tertuform og bakið við 200 í 30-35 mín.

Krem
Leggið döðlur og apríkósur í bleyti í sjóðandi vatn í um 10 mín. Hellið vatninu af og maukið ávextina í matvinnsluvél ásamt rjómaostinum og sætuefninu. Athugið að í staðinn fyrir rjómaostakremið má smyrja kökuna með sykurlausri sultu og skreyta hana svo með fullt af ferskum ávöxtum.

Njótið vel
Sigrún

Ástríðuterta - án sykurs

Smá fróðleikur...
Ekki þarf alltaf að nota sykur við bakstur og hægt er að búa til margt gott án þess að það sé mjög óhollt. Til að mynda er hægt að sæta kökurnar með ferskum eða þurrkuðum ávöxtum og ávaxtasafa. Ávextir hækka blóðsykurinn ekki jafn mikið og hvítur sykur og blóðsykurinn fellur ekki eins hratt við neyslu ávaxta enda flokkast þeir undir góð kolvetni. Ávextir innihalda vítamín og steinefni auk trefja í talsverðu magni sem geta lækkað blóðsykurinn. Ávextir gefa okkur því næringarríka orku. Og hananú !!

130 g döðlur
2 stórar gulrætur
180 g niðursoðnar perur (ekki í sætum sykurlegi)
100 g smjör, við stofuhita
3 egg við stofuhita
200 g heilhveiti
2 tsk lyftiduft
2 tsk kanill
1/2 tsk allrahanda
1/2 tsk salt
2 msk hunang
50 g valhnetur, saxaðar

Ber til skrauts

Hitið ofninn í 200°C. Leggið döðlurnar í bleyti í heitt vatn í um 10 mín ef þær eru harðar. Rífið gulræturnar smátt og maukið perurnar. Setjið smjörið í matvinnsluvél og bætið einu eggi út í í einu. Setjið döðlurnar, gulræturnar og perumaukið út í og blandið vel saman. Smyrjið hliðarnar á 20 cm smelluformi og sníðið smjörpappír í botninn. Setjið nú blönduna í skál og blandið þurrefnunum út í. Bætið að lokum hunanginu og hnetunum saman við. Hellið deiginu í formið og bakið í miðjum ofni í 35 mín eða þar til kakan er orðin vel gullin. Látið kökuna kólna alveg niður áður en kremið er sett á hana.

Skyrkrem.
150 g rjómaostur, við stofuhita
80 g hreint skyr
1 vanillustöng
1 1/2 msk hunang
3 msk safi úr appelsínu

Hrærið rjómaostinn og skyrið saman. Kljúfið vanillustöngina og skafið fræin innan úr henni. Blandið saman við kremblönduna ásamt hunanginu og appelsínusafanum. Smyrjið kreminu á kökuna og skreytið hana með berjum, t.d. hindberjum eða jarðarberjum.

Verði ykkur að góðu,
Guðrún Björk

Sunday, October 01, 2006

Gulrótarbollur með sólblómafræjum

Þessar eru mjög góðar, mjúkar og hollar, án sykurs og fitu. Úr uppskriftinni verða ca 20 lófastórar bollur. Þær bragðast einstaklega vel með smjöri, ostum og sultu. Gott að frysta þær til að eiga.

8 dl hveiti
4 dl grahamsmjöl
1-2 dl sólblómafræ (eftir smekk)
1 pk þurrger
3/4 tsk salt
1 stór gulrót
3 tsk hunang
6 dl volgt vatn

Blandið hveiti, grahamsmjöli, sólblómafræjum, þurrgeri og salti saman í skál. Ég nota hnoðskál en það má líka nota aðra skál og breiða viskastykki yfir skálina meðan deigið lyftir sér.
Leysið hunangið upp í volgu vatninu. Rífið gulræturnar gróft og setjið út í mjölið ásamt vatninu og hunanginu. Hrærið saman með sleif þar til deigið loðir saman. Það á að vera blautt því þannig lyftir það sér betur. Látið lyfta sér í 1 klst.
Hitið ofninn í 200 gráður, ekki nota blástur.
Hnoðið deigið vel upp úr hveiti þar til gott er að móta úr því bollur. Hnoðið í bollurnar og setjið þær á plötu með bökunarpappír. Leggið viskastykki yfir bollurnar og látið þær lyfta sér í allt að 30 mín. Bakið þær í 15-25 mínútur í miðjum ofni.