Skvísurnar á Stavnsvej

Saturday, November 04, 2006

Eplaskífur

Ekki laust við að jólafiðringur fari um mann, allt að fyllast af jóladóti og jólagjafaauglýsinarnar fylltu póstkassann fyrir helgina. Þessa uppskrift rakst ég á í Kökublaði Gestgjafans og mig langaði að deila henni með ykkur.
Eplaskífur eru ekki djúpsteiktar í feiti heldur bakaðar eða steiktar í sérstakri pönnu, eins og þið vitið. Margir undrast nafnið en upphaflega voru eplaskífur eplasneiðar sem dýft var í deig og svo steiktar. Seinna hurfu eplin en nafnið hélst. Sumir stinga þó enn eplabita í skífurnar áður en þeim er snúið við í fyrsta skipti.

En hér kemur uppskriftin.

250 g hveiti
fínrifinn börkur úr 1 sítrónu eða 1 tsk vanilludropar
1 msk sykur
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsóti
1/4 tsk salt
3 egg
um 400 ml súrmjólk
50 g bráðið smjör

smjör eða olía til steikingar

Hrærið allt sem fara á í deigið saman þar til komin er slétt deigsoppa, nokkru þykkari en vöffludeig. Hellið soppunni í könnu. Hitið eplaskífupönnuna, hellið svolítilli feiti í hverja holu og hellið svo deiginu í holurnar. Þær eiga að vera fullar að u.þ.b. þremur fjórðu hlutum. Steikið eplaskífurnar við meðalhita og byrjið að snúa þeim um leið og skorpa hefur myndast að neðan. Best er að nota tvo bandprjóna eða grillpinna en einnig má nota gaffla. Snúið skífunum nokkrum sinnum svo að þær steikist jafnt. Þær ættu að vera tilbúnar þegar þær eru fallega gullinbrúnar en gott er að taka eina upp og skera hana í tvennt til að athuga hvort hún sé gegnumsteikt. Hellið svolítilli feiti í holurnar á milli þess sem nýtt deig er sett í þær. Setjið eplaskífurnar svo á fat og sigtið flórsykri yfir þær. Berið fram með flórsykri og góðri sultu.

Kveðja,
Guðrún Björk

0 Comments:

Post a Comment

<< Home